Svo virðist sem færst hafi í vöxt að ferðamenn víðs vegar um landið lími hina og þessa miða á alls konar skilti sem verða á vegi þeirra. Í versta falli geta merkingar skiltanna, aðvaranir og mikilvægar upplýsingar, látið á sjá eða farið forgörðum.
Edda Kristín Eiríksdóttir, sérfræðingur og landvörður hjá Umhverfisstofnun á Patreksfirði, tók meðfylgjandi mynd af útskotsskilti við veg 612 þar sem horft er niður að Örlygshöfn á sunnanverðum Vestfjörðum. Hún segir límmiðafárið geta skapað hættu.
„Ég hef á tilfinningunni að þetta sé vaxandi vandamál hér. Við skófum ófáa límmiða af skiltum við Dynjanda í sumar og fundum límmiða á skiltum við einbreiðar brýr við þjóðveginn líka. Þetta skilti er þó það versta sem ég hef séð,” er haft eftir henni á vef Umhverfisstofnunar.
Edda Kristín hefur látið Vegagerðina vita vegna skiltisins á myndinni. Liggur fyrir að stofnunin mun bregðast við samkvæmt svörum sem fengist hafa.
smari@bb.is