Mikil vonbrigði með fyrirhugaða úrsögn Ísafjarðarbæjar

Í gær sögðum við frá ályktun sem bæjarfulltrúar Í-listans og Framsóknarflokks lögðu fram á bæjarstjórnarfundi Ísafjarðarbæjar í gær um að sveitarfélagið segði sig úr Byggðasamlagi um málefni fatlaðs fólks á Vestfjörðum (BsVest).

 

Fyrr á árinu óskaði Ísafjarðarbær eftir því að gerast leiðandi sveitarfélag á Vestfjörðum í málaflokki fatlaðs fólks og taka málaflokkinn og starfsemi BsVest yfir og veita þjónustu til annarra sveitarfélaga samkvæmt þjónustusamningum. Hin sveitarfélögin í BsVest lögðust gegn tillögu Ísafjarðarbæjar og í ályktun Í-listans og Framsóknarflokks kemur fram að afstaða þeirra hafi verið töluverð vonbrigði.

 

Nú hafa sveitarfélögin í BsVest sent frá sér eftirfarandi ályktun:

 

Tillaga í-lista og framsóknarflokks um úrsögn Ísafjarðarbæjar úr Byggðarsamlagi um málefni fatlaðra eru vonbrigði fyrir vestfirsk sveitarstjórnmál.

BsVest er byggðasamlag allra sveitarfélaga á Vestfjörðum um að sinna þjónustu við íbúa, sem eru okkar viðkvæmasti hópur.  Hversu mikils virði er samfélag sem ekki sinnir sínum minnstu bræðrum?

 

Einhliða ákvörðun Ísafjarðarbæjar er til þess fallin að skapa óvissu meðal þjónustuþega, getur rýrt traust þeirra á þjónustunni og mun þannig mögulega skapa aukin óþægindi og erfiðleika fyrir þennan hóp.

 

Ísafjarðarbær hefur um nokkra hríð lýst þeirri skoðun sinni að þeir ættu einir að stýra þjónustunni sem nú er veitt innan BsVest. Gerast leiðandi sveitarfélag. Frá upphafi hafa önnur sveitarfélög lýst yfir efasemdum um þessa skoðun Ísafjarðarbæjar og talið mikilvægt að halda áfram að vinna að því að bæta þjónustuna og gera hana skilvirkari með virku og skynsamlegu samstarfi á vettvangi BsVest.

 

Það er rangt sem kemur fram í tillögu Í – lista og Framsóknarflokks að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi hafnað því að Ísafjarðarbær myndi gerast leiðandi sveitarfélag í BsVest. Til þess hefur aldrei komið. Boðað var til aukafundar BsVest föstudaginn 17. nóvember, með einu máli á dagskrá; Tillögu Ísafjarðarbæjar um að gerast leiðandi sveitarfélag. Hins vegar dró Ísafjarðarbær tillögu sína til baka þessa sömu viku, fundurinn því afboðaður og tillagan aldrei afgreidd. Hins vegar hefur Ísafjarðarbæ ekki tekist að sýna fram á ávinning þess að færa þjónustuna frá Byggðasamlagi um málefni fatlaðra til Ísafjarðarbæjar sem leiðandi sveitarfélags.

 

Það er okkar staðfasta trú að saman getum við gert betur. Gott samstarf mun í öllum tilfellum leiða til betri þjónustu og skilvirkara starfs hjá öllum þjónustuþegum, alls staðar á Vestfjörðum. Með þessari yfirlýsingu staðfestum við þessa skoðun okkar.

 

Það fylgir því ábyrgð að vera stærsta sveitarfélagið á Vestfjörðum. Þjónusta við málefni fatlaðra er eitt þeirra verkefna sem þar stærri sveitarfélög eiga að leiða samstarfið um þjónustuna innan Vestfjarða öllum íbúum svæðisins til heilla. Það er hinsvegar ekki hægt að leiða verkefni án þess að njóta trausts. Úrsögn úr þessu stærsta samstarfsverkefni sveitarfélaga á Vestfjörðum er til þess fallið að rýra traust annarra sveitarfélaga til Ísafjarðarbæjar.

 

Við undirrituð hvetjum meirihluta Ísafjarðarbæjar og fulltrúa framsóknarflokks til að leggja tillögu um úrsögn úr BsVest til hliðar og verða raunverulega hið leiðandi sveitarfélag með því að öðlast traust og vinna málinu framgangs með samræðum og samstarfi. Það er ekki þess virði að ná sínum sjónarmiðum fram með hótunum og yfirgangi.

Baldur Smári Einarsson, formaður bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar

Friðbjörg Matthíasdóttir, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar

Steinn Ingi Kjartansson, oddviti Súðavíkurhrepps

Jón Gísli Jónsson, oddviti Strandabyggðar

Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananeshrepps

Karl Kristjánsson, starfandi oddviti Reykhólahrepps

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps

Indriði Indriðason, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

 

bryndis@bb.is

DEILA