Síðustu vikur og mánuði hafa verið mikil umsvif í Ísafjarðarhöfn. Aðkomutogarar hafa verið í fastri áskrift með reglulegar landanir. „Þetta er búið að vera mjög líflegt,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri. Ástæður fyrir tíðum löndunum aðkomutogara eru að sögn Guðmundar einfaldar, góð veiði á Vestfjarðamiðum og eftirspurn eftir ferskum fiski á mörkuðum í Evrópu. „Eftir því sem mér skilst eru ferskfiskmarkaðir í Evrópu mjög góðir og þegar menn eru að veiða á Vestfjarðamiðum munar um þann tíma sem það tekur fyrir skipin að sigla með aflann til heimahafnar og því kjósa menn að landa hér og keyra aflanum í suður,“ segir Guðmundur.
Togarar HB Granda hafa verið áberandi og einnig skip Nesfisks sem og Bergur VE, Frosti ÞH og Steinunn SF.
Guðmundur segir að landanirnar skipti miklu máli fyrir rekstur hafnarinnar. „Ég er vongóður um að við náum að halda tekjuáætlun ársins þrátt fyrir rólegt upphaf sökum sjómannaverkfalls.“
Í nóvember var landað 3.244 tonnum samanborið við 2.033 tonn í sama mánuði í fyrra.