Á landinu öllu er gert ráð fyrir að frost herði þegar líður á morgundaginn, verði á milli 3 og 15 stig, kaldast inn til landsins. Á föstudag er gert ráð fyrir austlægri átt, 5 til 13 m/s og víða éljum eða dálítilli snjókomu, síst þó á Suður- og Vesturlandi. Kalt í veðri, en dregur úr frosti norðaustan til.
Um helgina og fram á nýtt ár er útlit fyrir norðan- og norðaustanátt með éljum eða snjókomu víða á landinu, en yfirleitt bjartviðri suðvestan til. Áfram kalt í veðri.
Þriðjudaginn 2. janúar er svo gert ráð fyrir vaxandi suðaustan átt með úrkomu og hlýnandi veðri.
Færð á vegum
Búið er að hreinsa í kringum þéttbýli á Vestfjörðum en unnið er að mokstri á langleiðum. Klettsháls er ófær, Steingrímsfjarðarheiði er þungfær og þæfingsfærð í Djúpinu. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar. Áætlað er að opna norður í Árneshrepp á morgun.