Hestamennska í skammdeginu

Miðflokkurinn, með hestinn í fararbroddi, er nú á fullu að undirbúa sveitarstjórnarkosningar í vor, eins og bb.is skýrir frá. Af því tilefni er rétt að rifja upp eina söguna í 100 Vestfirskar gamansögur, Rauða kverinu. Þar segir á launfyndinn hátt frá hestamennsku framsóknarmanna í bæjarstjórnarmálum í Ísafjarðarbæ forðum. Íslenski hesturinn kemur sífellt  á óvart.

„Sigurður Sveinsson frá Góustöðum í Skutulsfirði, Siggi Sveins, var í meira en hálfa öld einn helsti burðarás Framsóknarflokksins á Ísafirði. Framsóknarflokkurinn átti um þrjátíu ára skeið einn fulltrúa í bæjarstjórninni og oft stóð tæpt með hann.

Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1998 spurði Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Ísafirði Sigga, sem var bjartsýnismaður í pólitík, hvernig hann teldi að Maddömunni gengi núna í kosningunum. Siggi svarar strax að þeir muni fá einn mann kjörinn.

Efasemdar- og undrunarsvipur kom þá á sýsla og Siggi bætti við:

Okkur gengur alltaf vel og fáum alltaf einn mann kjörinn, á hverju sem gengur.

Svo fannst Sigga að sýsli efaðist enn og bætti við:

Við gætum sett hest í fyrsta sætið og fengið hann kosinn.“

Hallgrímur Sveinsson.

DEILA