Ísafjarðarbær hefur tilkynnt formanni Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs (BsVest) fólks um úrsögn bæjarins úr byggðasamlaginu. Þetta kemur fram í bréfi Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, til Andreu K. Jónsdóttur, sveitarstjóra Strandabyggðar og formanns BsVest. Í bréfinu er vísað í samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þar sem ákveðið var að bærinn segði sig úr samstarfinu en bæjarfulltrúar Í-listans og Framsóknarflokks stóðu að ákvörðuninni. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðust gegn tillögunni í bæjarstjórn.
Í bréfi Gísla Halldórs kemur fram að Ísafjarðarbær hafi fullan vilja til áframhaldandi samstarfs með öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum um þennan málaflokk eftir að úrsögn Ísafjarðarbæjar tekur gildi. Fram til þess tíma að úrsögn tekur gildi óskar Ísafjarðarbær eftir góðu samstarfi við sveitarfélög á Vestfjörðum um málefni fatlaðs fólks, jafnt á vettvangi BsVest sem annarsstaðar.