Um þrjár milljónir sprittkerta eru brenndar hér á landi árlega, en álbikar utan um þrjú sprittkerti dugar til framleiðslu á einni drykkjardós úr áli. Hleypt hefur verið af stokkunum sérstöku endurvinnsluátaki á álinu í sprittkertum.
Átakið mun standa út janúarmánuð og komið hefur verið fyrir sérstökum endurvinnslutunnum fyrir álbikarana á 90 endurvinnslu- og móttökustöðvum um land allt, meðal annars hjá flöskumóttöku Fjölsmiðjunnar á Ísafirði. Fólk er beðið um að koma með álbikarana í sér pokum í flöskumóttökuna.
Að átakinu standa Sorpa, Endurvinnslan, Gámaþjónustan, Íslenska gámafélagið, Fura, Málmsteypan Hella og Plastiðjan Bjarg ásamt Samáli og Samtökum iðnaðarins. Álbikararnir sem safnast í átakinu fara ekki úr landi, heldur fara þeir í framleiðslu hér á landi hjá Málmsteypunni Hellu.
smari@bb.is