Matvælastofnun hefur veitt Arctic Sea Farm og Fjarðalaxi rekstrarleyfi til fiskeldis í Patreks- og Tálknafirði í samræmi við lög um fiskeldi. Samanlögð árleg framleiðsla fyrirtækjanna tveggja verður 17.500 tonn af laxi. Fjarðalaxi er heimilt að framleiða allt að 10.700 tonn á ári og Arctic Sea Farm 6.800 tonn. Hámarkslífmassi eldisins mun ekki fara yfir 20.000 tonn sem er í samræmi við burðarþolsmat fjarðanna. Starfsemin er einnig háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Fjarðalax, sem er dótturfyrirtæki Arnarlax, er með leyfi fyrir 3.000 tonna eldi í Patreksfirði og Tálknafirði en Arctic Sea Farm er ekki með eldisleyfi í fjörðunum.
Framkvæmd fyrirtækjanna fór í gegnum sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.
Heimilt er að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um útgáfu fyrrnefndra rekstrarleyfa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá birtingu þessarar fréttar.