Afgangur af rekstri samstæðu Strandabyggðar (A og B hluta) er áætlaður 26,9 milljónir króna á næsta ári. Fjárhagsáætlun var samþykkt í sveitarstjórn í síðustu viku að lokinni seinni umræðu. Áætlaðar fjárfestingar vegna framkvæmda árið 2018 hljóða upp á 64 milljónir króna. Haldið verður áfram í verkefninu Ísland ljóstengt og unnið að því að ljósleiðaravæða í dreifbýli norðan Hólmavíkur og á Langadalsströnd yfir í Djúp. Áfram er unnið að undirbúningi vegna hitaveitu á Hólmavík. Sett verður niður nýtt stálþil í höfnina og unnið áfram að gatnaframkvæmdum innanbæjar á Hólmavík. Byggja á nýja fjárrétt í Skeljavík, unnið verður áfram að viðhaldi á skólahúsnæði, endurbætur í íþróttamiðstöð og framkvæmdir í félagsheimili auk þess sem fjármunir verða settir í hönnun á götum auk leikvalla og tjaldsvæðis. Áætlað er að fjármagna þessar framkvæmdir með 64 milljóna króna láni en takist sala eigna kemur það til lækkunar á lántöku.
smari@bb.is