Gera gagn fyrir Fannar

Fannar Freyr Þorbergsson.

Þann 19.október lenti ungur Ísfirðingur, Fannar Freyr Þorbergsson, í alvarlegu bílslysi í Álftafirði. Í slysinu hlaut hann skaða á mænu og framundan er löng og ströng endurhæfing. Fannar er baráttujaxl og er þegar búinn að ná skjótari bata en læknar gerðu ráð fyrir.

Það því miður alkunna að það er dýrt að slasast og vera veikur á Íslandi og þjálfarar og starfsfólk Studio Dan á Ísafirði ætla að leita til nærsamfélagsins til að leggja sitt af mörkum og gefa Fannari Frey góða jólagjöf sem vonandi léttir aðeins undir í baráttunni sem bíður hans.

Á Þorláksmessu kl. 10:00-11:45 verður blásið til viðburðarins „Gerum gagn“.

Gerum gagn er stöðvaæfingagleði sem verður til húsa í Studio Dan og kostar kr. 2.000 að vera með og rennur upphæðin sem inn kemur óskipt til Fannars. Greiða þarf með seðlum svo hægt sé að afhenda upphæðina sem safnast í lok viðburðar.

Örlítið um Gerum gagn:

  • Það þarf ekki að eiga kort í Studioinu til að vera með
  • Verð kr. 2000 á mann en frjáls framlög að sjálfsögðu vel þegin
  • Æfingunum er stillt upp þannig að allir geta verið með, óháð aldri, líkamsástandi eða öðru
  • Studio Dan verður skipt upp í 6 stöðvar
  • Unnið í 10 mín á hverri stöð
  • 8-10 manns á hverri stöð
  • Stöðvarnar innihalda meðal annars:
  • Spinning
  • Hreyfingu á þrektækjum
  • Lóða og tækjaæfingar
  • Liðleika og kviðæfingar
  • Lotuþjálfun

Vilji fólk mæta í hópum er það sjálfsagt mál og bent á að tilvalið væri að mæta í fatnaði sem einkennir hópinn. Þeir sem vilja leggja málefninu lið en ekki taka þátt í hreyfingunni geta að sjálfsögðu litið við í Studionu, heilsað upp á hópinn og stutt við átakið. Fyrir fyrirtæki og þá sem ekki komast til að vera með á laugardaginn er bent á að einnig er hægt að leggja inn á reikning Fannars: 0556-14-602586-091089-3199.

smari@bb.is

DEILA