Í dag er runninn upp mikill gleðidagur í lífi skotglaðra en björgunarsveitirnar hér vestra hefja flugeldasöluna í dag. Flugeldamarkaður Björgunarfélags Ísafjarðar og Tinda í Hnífsdal verður í Félagsheimilinu í Hnífsdal og hefst sala kl. 13 í dag og Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík hefur sölu kl. 18 í dag.
Samkvæmt reglugerð um skotelda er óheimilt að selja skotelda til almennings nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar. Sala skotelda er stærsta tekjulind björgunarsveitanna og sölutímabilið því gríðarlega mikilvægt fyrir sveitirnar. Í byrjun árs tók gildi ný reglugerð um stærð skotelda. Nú er því bannað að selja svokallaðar „risakökur“ sem björgunarsveitir höfðu á boðstólum um árabil.