Fimm brennur í Ísafjarðarbæ

Áramótabrennur verða í öllum fimm byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar. Að fara á brennu og sýna sig og sjá aðra, taka lagið og skjóta upp flugeldum er fastur liður í áramótahaldi margra. Áramótabrennur hafa tíðkast á Íslandi um langt skeið. Fram kemur á Vísindavefnum að elsta þekkta frásögnin um brennur um áramót sé frá árinu 1791 þegar greint er frá því að piltar við Hólavallaskóla í Reykjavík hafi haldið brennur á hæð skammt frá skólanum. Talið er að það hafi verið Landakotshæð.

Rúmlega 100 ára hefð

Á 19. öld breiddist siðurinn út um Reykjavík og síðan um aldamótin á einstökum sveitabæjum.  Sums staðar á Suður- og Vesturlandi var reynt að haga svo til að kveikt væri í bálkestinum á sama tíma á öllum bæjum í byggðarlaginu svo að hver sæi til annars. Við upphaf 20. aldar voru brennur orðnar algengar hér á landi.

Brennur í Ísafjarðarbæ verða sem hér segir:

Ísafjörður: Klukkan 20.30 á Hauganesi

Hnífsdalur: Klukkan 20.30 á Árvöllum

Suðureyri: Klukkan 20.30 á Hlaðnesi

Flateyri: Klukkan 20.30 við smábátahöfn

Þingeyri: Klukkan 20.20 á Þingeyrarodda

Meðfylgjandi myndband var tekið á brennunni í fyrra.

DEILA