Árið 2006 dreifði Hálfdan Pedersen hundruðum einnota ljósmyndavéla til fimm ára leikskólabarna í öllum bæjar- og sveitarfélögum á Íslandi. Ætlunin var að hvetja ung börn til að prófa sig áfram með ljósmyndun og um leið fanga lífið með augum barna. Viðfangsefni myndanna var undir börnunum sjálfum komið. Hvert barn fékk einnota myndavél með 27 ramma filmu sem það mátti nota í viku. Afraksturinn varð yfir 30 þúsund ljósmyndir og hefur úrval þeirra birst á ljósmyndasýningum á Menningarnótt og Listahátíð í Reykjavík.
Nú 11 árum frá upphafi verkefnisins hafa verið valdar ljósmyndir sem prýða 215 síðna ljósmyndabók sem ber heitið FIMM. Ljósmyndarar bókarinnar eru 107 talsins og eru ljósmyndirnar teknar víðsvegar um landið. Sjónarhorn barnanna er listrænt en laust við tilgerð og veitir ómetanlega innsýn í raunveruleika fimm ára aldamóta barna á Íslandi.
500 krónur af hverri seldri bók rennur til Barnaspítala hringsins.
Meðfylgjandi myndir voru teknar af fimm ára vestfirskum börnum.
bryndis@bb.is