Bullhúsið á Bíldudal tekið niður og varðveitt

Bullhúsið á Bíldudal.

Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal hefur tekið niður og gefið Áhugamannafélaginu Gyðu það sem eftir var af Bullhúsinu svokallaða, gömlu pakkhúsi sem stóð á athafnalóð félagsins, ásamt mjög nákvæmum teikningum og myndum sem fyrirtækið lét útbúa áður en húsið var tekið niður. Gyða er áhugamannafélag um varðveislu menningarminja á Bíldudal og hefur félagið í hyggju að láta endursmíða það og reisa á ný á Bíldudal fáist til þess nægilegt fjármagn. Bullhúsið var elsta atvinnuhúsnæði Bíldudals, hluti menningarsögu bæjarins og friðað samkvæmt lögum. Það var tekið niður í samræmi við leiðbeiningar og kröfur Minjastofnunar Íslands.

Bullhúsið var upphaflega flutt til Bíldudals frá Noregi af Brödrene Bull sem reistu það 1894 við hvalveiðistöð sína á Stekkeyri í Jökulfjörðum. Um aldamótin 1900 keypti athafnamaðurinn Pétur Torsteinsson húsið og reisti á Bíldudal. Þar var það notað sem aðgerðar- og pakkhús, en einnig sem leikhús og til dansleikjahalds eftir því sem fram kemur í gögnum Minjastofnunar. Þar var einnig saltfiskur þveginn innandyra í fyrsta sinn hér á landi vegna þeirrar framsýni að leiða vatn inn í húsið sem gerði þvottinn þar mögulegan.

Frá niðurrifi hússins.

Timburverk nær ófúið

Áður en húsið var tekið niður skoðuðu sérfræðingar á vegum Minjastofnunar húsleifarnar ítarlega og sú skoðun leiddi í ljós að timburverk þess er nær ófúið þótt ýmsar stoðir vanti og ýmsar séu brotnar. Burðarbitarnir voru t.d. víða lásaðir saman að frönskum sið. „Skoðun sérfræðinga á okkar vegum var engu að síður sú að húsnæðið var í heild mjög bágborðið auk þess sem slysagildra stafaði af því. Það var því ekki um annað að ræða en að heimila niðurtöku þess að lokinni mjög nákvæmri uppmælingu á því og gerð samsvarandi teikninga,“ segir Einar Ísaksson minjavörður Vestfjarða hjá Minjastofnun.

„Minjastofnun var okkur til ráðgjafar um hvernig best væri að taka húsið niður, en áður lögðum við í tæplega þriggja milljóna króna kostnað til að láta mæla húsið mjög nákvæmlega upp, alveg upp á millimetra til að hægt væri að gera teikningar af húsinu og endurreisa á ný. Við gáfum síðan Gyðu húsið, teikningarnar og einnig ljósmyndir sem teknar voru meðan á niðurtöku hússins stóð. Það væri gaman fyrir Bíldudal verði húsið endurreist og fundið nýtt hlutverk betri stað hér í þorpinu,“ segir Einar Sveinn Ólafsson, nýfjárfestingastjóri Marigot, eiganda Kalkþörungafélagsins, hér á landi.

Ný bygging rís á lóðinni

Hann segir að þar sem gamla pakkhúsið stóð verði reist ný 1400 fm bygging samföst núverandi verksmiðjuhúsnæði þar sem lager Kalkþörungafélagsins verði geymdur. „Við áttum fund með hafnarstjórn og bæjarstjóra Vesturbyggðar í október þar sem við handsöluðum samkomulag um sameiningu tveggja lóða, Strandgötu 2 og Hafnarbraut 4 þar sem við hygghumst reisa lagerhúsnæðið. Að lokinni þeirri framkvæmd verðum við komin með allan afurðalager fyrirtækisins undir þak sem verður til mikilla bóta,“ segir Einar Sveinn.

smari@bb.is

DEILA