Fiskafli íslenskra skipa í nóvember var 77.902 tonn sem er 1 prósent meiri afli en í nóvember 2016. Botnfiskaflinn nam rúmum 44 þúsund tonnum og jókst um 12 prósent. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar. Af botnfisktegundum veiddist sem fyrr mest að þorski eða rúm 26.700 þúsund tonn sem er svipaður afli og í nóvember 2016. Tæp 5.700 tonn veiddust af ufsa sem er ríflega tvöfalt meiri afli en á sama tíma í fyrra. Afli uppsjávartegunda nam rúmum 31.600 tonnum og samanstóð af síld og kolmunna. Síldaraflinn nam tæpum 24 þúsund tonnum og dróst saman um 25 prósent en rúm 7.700 tonn veiddust af kolmunna sem er nær tvöfalt meira en í nóvember 2016. Afli flatfisktegunda nam 1.350 tonnum og dróst saman um 12 prósent. Skel- og krabbadýraafli jókst hins vegar um 35 prósent, nam 735 tonnum samanborið við 543 tonn í nóvember 2016.
Heildarafli á 12 mánaða tímabili frá desember 2016 til nóvember 2017 var 1.166 þúsund tonn sem er 10% aukning miðað við sama tímabil ári fyrr.
Verðmæti afla í nóvember metið á föstu verðlagi var 5,4 prósent meira en í nóvember 2016.
smari@bb.is