FSu tók á móti Vestra í íþróttahúsi Hrunamanna um helgina. Fyrir leikinn höfðu Vestramenn landað sínum fyrsta útisigri tímabilsins gegn Gnúpverjum og vildu freista þess að bæta útileikjasigurhlutfallið enn frekar.
Leikurinn var jafn og spennandi í fyrstu og liðin skiptust á að hitta og ákefðin á báðum endum vallarins sást vel. Hvorugt liðið hafði forystuna þegar fyrsta leikhlutanum lauk og stigin voru að dreifast vel á leikmenn beggja liða. Liðin fóru inn í annan leikhluta í stöðunni 19-19 og gestirnir settu fljótt í annan gír sem FSu átti erfitt með að fylgja í fyrstu. Þegar blásið var til hálfleiks var staðan 40-45, Vestra í vil.
Fyrstu 6-7 mínúturnar af seinni hálfleiknum voru nokkuð jafnar og FSu hleyptu Vestra aldrei of langt fram úr sér. En hægt og bítandi hertu Vestramenn tök sín á leiknum sem endaði með 74 : 88 sigri Vestra.
Vestri er í fjórða sæti 1. deildar Íslandsmótsins með 16 stig en ekki eru nema tvö stig upp í topplið Breiðabliks og Vestri hefur leikið einum leik færra en lið Blikanna.
smari@bb.is