Í nýju fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra er áfram lagt til að framlag ríkissjóðs til Náttúrustofu Vestfjarða verði skorið niður um ríflega þriðjung á næsta ári – úr 28,7 milljónum króna í 17,7 milljónir króna. Ljóst að er niðurskurðurinn veldur verulegum búsifjum í rekstri Náttúrustofunnar og þarf jafnvel að grípa til fækkunar stöðugilda. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar bókaði um fyrirhugaðan niðurskurð og í bókuninni er ríkisvalið hvatt til að efla starfsemi Náttúrustofu Vestfjarða með auknum fjárveitingum og „slást með þeim hætti í lið með Vestfirðingum sem telja gífurlega mikilvægt að mikill kraftur verði settur í rannsóknir á strandsvæðum Íslands.“
Bæjarráð óskar jafnframt eftir því að sveitarfélög á Íslandi fái þann lýðræðislega rétt að taka að sér skipulag á strandsvæðum.
Í bókuninni segir:
„Hafrannsóknir á mikilvægum fiskistofnum við Ísland hafa leitt til sívaxandi þekkingar á þessum mikilvægu auðlindum, þó vissulega þurfi einnig að efla þær rannsóknir enda er fjölmargt sem rannsaka þarf betur. Rannsóknir á strandsvæðum Íslands, þar sem m.a. er að finna uppvaxtarsvæði mikilvægra fiskistofna og mikil tækifæri til uppbyggingar í fiskeldi og annarri matvæla- og líftækniframleiðslu, eru þó varla fugl né fiskur. Í ljósi mikilvægis strandsvæða fyrir okkur Íslendinga er kominn tími til að þjóðin hætti að vera eftirbátur annarra þjóða í rannsóknum og skipulagi strandsvæða.
Strandsvæðin eru Vestfirðingum einkar mikilvæg, enda þriðjungur strandlengju Íslands á Vestfjörðum.“
smari@bb.is