Um 40 prósent leigjenda þiggja húsnæðisbætur samkvæmt könnunum Íbúðalánasjóðs. Tölur um greiddar húsnæðisbætur sýna að í október fengu um 14.100 heimili húsnæðisbætur, eða samtals um 26 þúsund manns, 8 prósent allra landsmanna.
Húsnæðisbætur eru búbót fyrir mörg heimili, sérstaklega þau tekjulægri. Um 70 prósent heimila sem þiggja húsnæðisbætur eru með lægri heimilistekjur en 400 þúsund krónur á mánuði, og á meðal þessara heimila nema húsnæðisbætur að meðaltali 34 prósent af greiddri leigu.
Milli apríl og október lækkaði meðalgreiðsla húsnæðisbóta úr 31.700 krónum í 30.400 krónur, eða um 4 prósent. Eigna- og tekjuskerðingar ásamt grunnfjárhæðum húsnæðisbóta héldust þó óbreytt yfir tímabilið. Leiguverð fór hins vegar hækkandi á sama tímabili. Meðalleigufjárhæð meðal bótaþega húsnæðisbóta var um 1.560 krónur á fermetra í október og hafði hækkað um 3,2 prósent síðan í apríl, eða um 6,5% á ársgrundvelli. Til samanburðar hækkaði leiguverðsvísitala Þjóðskrár Íslands um 0,9 prósent á sama tímabili eða 1,8 prósent á ársgrundvelli.
Konur eru í miklum meirihluta meðal umsækjenda um húsnæðisbætur. Það á jafnt við um þá umsækjendur sem búa einir og þá sem búa með fleirum á heimili. Á meðal þeirra umsækjenda sem bjuggu einir þáðu 4.300 konur og 3.600 karlar húsnæðisbætur í september. Alls búa 56 prósent bótaþega húsnæðisbóta einir á heimili.
smari@bb.is