19 milljóna afgangur

Í sumar var fjárfest í Ærslabelg í Bolungarvík

Bæjarstjórn Bolungarvíkur samþykkti í fundi sínum  á þriðjudaginn fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 og að sögn Baldurs Smára Einarssonar formanns bæjarráðs ber áætlunin merki betri tíðar í Bolungarvík. Gert er ráð fyrir 19 milljóna afgangi af rekstri og skuldahlutfallið verði komið niður í 110% sem er vel undir þeim 150% mörkum sem sveitarstjórnarlög kveða á um.

Á framkvæmdalista næsta árs er leikskólabygging, gatnagerð og fegrun umhverfis. Stækkun leikskólans Glaðheima er fyrsti áfangi og mun kosta 75 milljónir  og 40 milljónum verður varið í gatnagerð.

Baldur Smári ritar grein sem birtist á bb.is í gær og þar nefnir hann sömuleiðis nýtt verkefni sem kallað er „Betri Bolungarvík“ þar sem lögð verður áhersla á aukið íbúalýðræði og um tillögur bæjarbúa verði kosið í rafrænni kosningu. Settur verður upp hugmynda- og kosningavefur á heimasíðu bæjarins og geta íbúar kosið þar um þau verkefni sem þeir vilja að fái framgang á árinu 2018.

Baldur segir sömuleiðis að fjárhagsstaða bæjarins hafi aldrei verið betri og heilt yfir séu allar kennitölur sem sveitarfélög miða við í rekstri sínum að batna.

bryndis@bb.is

DEILA