„Fiskeldið hefur líka komið mjög sterkt inn á þessu ári, og gaman að fylgjast með uppbyggingu atvinnugreinarinnar. Samhliða vexti fiskeldisins hefur verið unnið að mótun stefnu sem miðar að því að greinin dafni í sátt við þjóðina, lífríki og náttúru og virðast langflestir meðvitaðir um mikilvægi þess að byggja fiskeldið upp á varkáran og skynsamlegan máta. Við viljum auðvitað verða fremst í fiskeldi líka, og getum orðið það ef við gerum hlutina rétt.“ Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra í viðtali í Morgunblaðinu. Í viðtalinu fer hún yfir þetta tæpa ár sem hún hefur verið í ráðuneytinu en allar líkur eru á að hún hverfi úr ríkisstjórn innan skamms og setjist í stjórnarandstöðu.
Meðal þeirra verkefna sem Þorgerður er ánægð með að hafa komið af stað er stofnun stýrihóps sem vann tillögur um endurskoðun almenna byggðakvótakerfisins.
„Sértæki byggðakvótinn er á könnu Byggðastofnunar en almenni byggðakvótinn hjá ráðuneytinu. Mjög áhugaverðar hugmyndir komu út úr starfi stýrihópsins og vonandi verður þeim fylgt eftir,“ segir hún.
„Megininntakið er það að færa meira vald yfir byggðakvótanum yfir til sveitarfélaganna svo að þau sjálf – en ekki miðstýrt vald í Reykjavík – ákveði hvernig kvótanum verður best ráðstafað. Sum myndu vilja láta kvótann ganga beint til ákveðinna útgerða, en á öðrum stöðum gæti orðið ofan á að selja kvótann og nota ágóðann til annarrar uppbyggingar.“
smari@bb.is