Mögulega þarf að fara allt aftur í febrúarmánuð árið 1999 til að finna jafnlangan og leiðinlegan kafla með norðanhríðum og gekk yfir landið frá miðvikudegi síðustu viku og fram á helgina. Rætt er við Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir á að frá kvöldi 18. febrúar 1999 og fram á aðfararnótt 22. febrúar, eða fyrir tæpum 19 árum, hafi geisað stórhríð um norðanvert landið og verið því sem næst samfelld í þrjá til fjóra sólarhringa.
„Aðdragandinn að hríðarbylnum var reyndar nokkur annar en nú. Þá var nærgöngul lægð fyrir norðan land, en nú einkenndist bylurinn frekar af háum þrýstingi. Og margt gekk á. Til dæmis kyngdi niður miklum snjó svo sem á Akureyri, hús voru rýmd á Siglufirði, í Bolungarvík. Snjóflóð féll úr Tindastóli og rafmagnsleysi var í Skagafirði. Vegir voru lokaðir meira og minna í nokkra daga líkt og nú,“ segir Einar.
smari@bb.is