Rétt fyrir hádegi tilkynntu flokkarnir um ráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdótttur. Tveir ráðherrar koma úr Norðvesturkjördæmi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (D) heldur áfram sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ásmundur Einar Daðason (B) verður félagsmálaráðherra.
Að öðru leyti verður ríkisstjórnin svo skipuð:
Katrín Jakobsdóttir verður forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, tekur við embætti heilbrigðisráðherra. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar sem ekki er á þingi, mun gegna embætti umhverfisráðherra.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, víkur úr forsætisráðuneytinu og yfir í fjármálaráðuneytið, þar sem hann hefur setið áður. Sigríður Á. Andersen gegnir áfram embætti dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson situr áfram á stóli utanríkisráðherra. Kristján Þór Júlíusson víkur þá úr embætti menntamálaráðherra og færist yfir í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, þar sem hann mun gegna embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokks, mun gegna embætti samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra auk þess að vera samstarfsráðherra Norðurlanda. Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, verður menntamálaráðherra.
smari@bb.is