Í gær hófu verslanir á sunnanverðum Vestfjörðum að bjóða upp á margnota poka til láns í sínum verslunum. Verkefnið er hluti af alþjóðlegu verkefni sem hefur verið nefnt Boomerang og gengur út á að minnka plastpokanotkun í heiminum. Nú geta viðskiptavinir fengið poka að láni í stað þess að kaupa plastpoka. Margir eiga sína eigin poka og koma með þá að heiman og er það best. Ef taupokinn gleymist heima er hægt að fá lánaðan taupoka í stað þess að kaupa plastpoka.
Boomerang er alþjóðlegt verkefni þannig að það má skila pokunum aftur hér á landi á merktri Boomerang pokastöð og erlendis.
Þær verslanir sem eru með í þessu verkefni eru:
- Fjölval
- Albína
- Gillagrill
- Hjá Jóhönnu
- Vegamót
- Logi
- Vöruafgreiðslan
- Lyfja
- Pósthúsið
- Bókasafnið
Lauslega er áætlað að þessar verslanir selji um 70.000 plastpoka á ári. Miðað við 500 heimili þá eru það 140 pokar á hvert heimili.
Það er styrkur hópur sem stendur að þessu verkefni og hefur útbúið pokana úr efni sem er var fáanlegt á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Búið er að útbúa rúmlega 500 poka fyrir svæðið og það verður síðan að koma í ljós hversu marga þarf í viðbót. Þessir hópar hittast áfram til þess að sauma poka ef vantar. Hóparnir hafa hist í Húsinu á Patreksfirði, Vindheimum í Tálknafirði og Læk á Bíldudal.
smari@bb.is