Á Laugardaginn gengu Íslendingar til Alþingiskosninga. Hér í Norðvesturkjördæmi bauð Framsóknarflokkurinn fram framboðslista með kraftmiklu fólki víðsvegar úr kjördæminu. Eins og öllum er ljóst þá hefur flokkurinn gengið í gegnum talsverða erfiðleika. En á undanförnum vikum hefur komið fram mikill kraftur og tekist hefur að virkja grasrót flokksins víðsvegar um landið. Á ferðum okkar um kjördæmið fundum við fyrir mikilli jákvæðni og hún endurspeglaðist í úrslitum kosninganna. Þegar búið var að telja öll atkvæði þá fékk Framsóknarflokkurinn 18,42% atkvæða og er næststærsti flokkurinn í kjördæminu.
Undirrituð voru kjörin á Alþingi fyrir okkar kjördæmi og við viljum með þessari stuttu grein þakka ykkur fyrir þann stuðning sem þið sýnduð bæði okkur og Framsóknarflokknum. Þessu fylgir mikil ábyrgð og við munum leggja okkur fram að standa undir henni. Norðvesturkjördæmi er stórt og víðfemt. Það að ná tveimur þingmönnum auðveldar okkur að ná utan um kjördæmið.
Við viljum að lokum hvetja íbúa kjördæmisins til að vera í sambandi við okkur um mál sem brenna á fólki. Við erum hér fyrir ykkar tilstilli og mikilvægt að samstarf okkar verði gott á kjörtímabilinu.
Með góðri kveðju og þökk fyrir stuðninginn.
Ásmundur Einar Daðason
Halla Signý Kristjánsdóttir