Veginum um Súðavíkurhlíð var lokað í gærkvöldi vegna snjóflóðahættu en vitað er að eitt snjófljóð féll á veginn í gær. Lítið sem ekkert skyggni hefur gert starfsmönnum Vegagerðarinnar ókleift að meta aðstæður. Guðmundur R. Björginsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir að veginum um Súðavíkurhlíð verði haldið lokaðum á meðan ekki er hægt að meta aðstæður.
Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Á vef Veðurstofunnar segir að snjórinn sem hefur fallið síðasta sólarhringinn sé óstöðugur eins og er og áfram er spáð éljagangi og hvössum vindi. Einkum er hætta á óstöðugum snjó í lægðum og giljum ofarlega í fjöllum og hlémegin við norðanáttina.
smari@bb.is