Tveir stúlknaflokkar körfuknattleiksdeildar Vestra spiluðu að heiman í Íslandsmótum á dögunum og þótt sigrarnir hefðu ekki allir fallið Vestra megin var frammistaða beggja flokka góð. Stelpurnar í 9. flokki kepptu í A-riðli í annarri umferð Íslandsmótsins og var leikið í Keflavík en þær höfðu sigrað B-riðil örugglega í fyrstu umferð. Stelpurnar í minnibolta eldri (11 ára) sóttu Þorlákshöfn heim í fjölliðamóti þar sem þær tókust á við jafnöldur sínar í B-riðli. Níundi flokkur átti við ramman reip að draga í sínum fjórum leikjum enda við bestu lið landsins að etja. Þrátt fyrir góða spretti á köflum náði liðið ekki að landa sigri en ljóst að mikið býr í þessu vaska liði Vestra.
Stúlkurnar í minniboltamótinu léku einnig fjóra leiki og fóru leikar þannig að þær sigruðu tvo fyrstu leikina og biðu lægri hlut í seinni tveimur leikjunum.
smari@bb.is