Meistaraflokkar Vestra í blaki fengu Hamar frá Hveragerði í heimsókn á helginni og seint verður hægt að segja að gestrisnin hafi verið í hávegum höfð. Kvennaliðin áttust við kl. 11:00 á laugardag og marði Vestri sigur í 5 hrinu leik, Vestri tapaði fyrstu og þriðju hrinu og landaði svo sigrinum í oddahrinu. Kvennaliðið hefur nú unnið fjóra leiki en tapað þremur.
Karlaliðið lagði Hamar svo sannfærandi að gestirnir sáu aldrei til sólar og þar með náði Vestri sínum fyrsta sigri og vonandi sama sigurtaktinum og liðið náði í fyrra. Nýr leikmaður Vestra Mateuz Klóska var sannarlega betri en enginn og þeir bræður Eydal, Birkir og Kári eru ansi liprir í móttökunni. Þjálfari liðsins Tihomir Paunovski er meiddur og í hans stað spilaði Hafsteinn Már Sigurðsson upp af stakri snilld.
Þess má geta að í karlaliðinu voru feðgar, Sigurður Hreinsson og Hafsteinn sonur hans, og tvenn pör bræðra, þeir Sigurður og Kjartan Kristinssynir og Birkir og Kári Eydal. Og í kvennaliði Vestra voru mæðgurnar Petra Dröfn og Sóldís Björt frá Suðureyri.
bryndis@bb.is