Kristinn Pétursson, fyrrv. þingmaður og verkefnissstjóri fyrirhugaðrar Austurgilsvirkjunar í Ísafjarðardjúpi, skrifar mikla stuðningsyfirlýsingu við Hvalárvirkjun á Facebooksíðu sína. Hann bendir á að talað hefur verið um að virkja Hvalá í áratugi, eða frá því fyrir 1950. Hann segir einnig að þeir sem standa fyrir verkefninu í dag hafa kostað til milljarða í undirbúning og rannsóknir. „Hver ætlar að borga þá milljarða, ef fara á í eignarupptöku á verkefni sem búið er að leyfa? Já það er eignarupptaka að ætla að eyðileggja verkefnið núna. Þá þarf einhver að borga. Hver?“ spyr Kristinn.
Kristinn nefnir einnig að virkjunin sé í nýtingarflokki rammaáætlunar og landeigendur hafi gert skriflega samninga við Vesturverk ehf. um nýtingu vatnsréttinda. Hann telur það vera eignarupptöku ef verkefnið verður stöðvað núna.
Hann telur að Hvalárvirkjun verði lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á Ströndum. „Ferðamannaiðnaður á Vestfjörðum á betri sóknarfæri strax þegar virkjunin kemst á framkvæmdastig. Þá kemur fljótlega sumarvegur yfir Ófeigsfjarðarheiði þar sem háspennustrengur yrði lagður í vegkanti þjónustuvegar við háspennustrenginn. Ferðamenn geta þá ekið þann veg „hringinn“ – frá Ströndum í Djúp og öfugt,“ skrifar Kristinn.
Honum finnst vera kominn tími til að mótmælendur á höfuðborgarsvæðinu fari að íhuga hvort það sé ekki „óviðeigandi dónaskapur að ástunda sífellt ýktan áróður í fjölmiðlum um áhrif Hvalárvirkjunar. „Mér finnst það eðlilegir mannasiðir að láta fólkið á Ströndum í friði með sín áform.“
Upp hafa komið hugmyndir um að stofna þjóðgarð á Ströndum í stað virkjunar. Kristinn segir að næg svæði séu á Vestfjörðum fyrir þjóðgarð norðan Árneshrepps ef landeigendur og Ísafjarðarbær vilja það. „Aðgengi að þeim þjóðgarði yrði auðveldara með virkjun Hvalár og kominn sumarvegur milli Stranda og Djúps og hægt að „aka hringinn“. Án Hvalárvirkjunar komast fáir á svæðið nema þá nokkrir „sérútbúnir fjallagarpar“. Almenningur kemst aldrei á þetta svæði, nema það verði virkjað og það komi sumarvegur með lagningu háspennustrengs í vegkanta á sumarvegi milli Stranda og Djúps,“ skrifar Kristinn.