Í árslok renna út samningar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við sveitarfélögin um rekstur náttúrustofa. Hafinn er undirbúningur að endurskoðun samninganna þar sem meðal annars er ætlunin að fara yfir verkefni náttúrustofa í ljósi af reynslu af starfsemi þeirra og hver þau eiga að vera til framtíðar.
Í bréfi ráðuneytisins til sveitarfélaga á Vestfjörðum er lagt til að samningur um rekstur Náttúrstofu Vestfjarða verði framlengdur um eitt ár þar sem ekki gefst tími til að endurskoða samninginn fyrir árslok.
Málefni Náttúrustofu Vestfjarða hafa verið í brennidepli síðustu vikur en í fjárlagafrumvarpi Benedikts Jóhannessonar fráfarandi fjármálaráðherra er gert ráð fyrir að framlög ríkisins til stofunnar verði skorin niður um þriðjung. Fjárlögin komu ekki til afgreiðslu þingsins þar sem ríkisstjórnin féll skömmu eftir að frumvarpið var lagt fram og alls óvíst hver afdrif frumvarpsins verða.
smari@bb.is