Eduardo Abrantes hefur undanfarinn mánuð dvalið í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði og er þetta í annað sinn á þessu ári sem hann heimsækir svæðið og er því orðinn ansi hagvanur. Í dvöl sinni nú hefur hann unnið að röðum styttri hljóðverka. Öll fela þau í sér hljóð sem tekin eru upp á staðnum og flest breytt yfir í óþekkjanlegt horf. Sum eru taktföst, snörp og hávaðasöm, önnur hæg, endurtekningarsöm og hljóðlát. Flest fela þó í sér báða eiginleikana, þar sem listamanningum geðjast að kontrastinum. Eduardo býður gestum að koma með forvitnina að leiðarljósi á hljóðinnsetningu í Edinborgarhúsinu annaðkvöld kl. 20. Hann segir að fólki sé velkomið að láta sér leiðast, en umfram allt býður hann fólk velkomið til viðburðarins:
„Það eru tveir hlutir sem veita mér sérstaklega innblástur við það að vinna listrænt með hljóð. Annað er það að efniviðurinn getur fundist hvar sem er. Hitt er að hann græðir yfirleitt á því að vera tekinn úr sínu venjubundna umhverfi.
Þegar þú tekur upp hljóð í náttúrunni og seinna hlustar á þau, sameinast þeim og sveigir þau að einhverskonar innandyra, heimilisumhverfi, þá ertu í raun að virkja í þér gullgerðarmanninn. Þú skapar tengingar, þú ert að losa það sem er bundið, þú ert að færa það sem er víbrandi, óhlutbundið yfir í raungert horf. Það má líka gera slíkt án þess að nota orð,“ segir Eduardo.
Eduardo kemur upprunalega frá Lisbon í Portúgal, en hefur undanfain ár verið búsettur í Kaupmannahöfn. Hann er hljóðlistamaður og listrænn fræðimaður. Verk hans má kynna sér nánar á: www.pairsofthree.org
Innsetningin er í Edinborgarhúsinu þriðjudaginn 28. nóvember og er aðgangur ókeypis.
smari@bb.is