Ljósleiðaraþjónusta hafin í Dýrafirði og Önundarfirði

Menn frá Snerpu að plægja niður ljósleiðara á Hvilftarströnd í Önundarfirði.

Í gær opnaði Snerpa ehf. formlega ljósleiðaraþjónustu í Dýrafirði og Önundarfirði. Þjónustan nær einungis til fárra notenda til að byrja með en verður byggð frekar upp á næstu árum. Í fyrsta áfanga eru grunnskólinn og leikskólinn á Þingeyri tengdir netinu auk samfélagsmiðstöðvarinnar Blábankans. Þá stendur þjónustan einnig til boða í dreifbýlinu innan við Þingeyri, í Hvammi og á Ketilseyri. Í Önundarfirði markast þjónustusvæðið frá Ytri-Veðrará út á Kaldeyri að meðtöldum Breiðadal. Þar með gefst jafnframt kostur á tengingu fyrir tvær nýjar virkjanir sem er verið að byggja á svæðinu. Nettenging virkjananna er ein af forsendum þess að mæla og stjórna rafmagnsframleiðslu í þeim enda eru þær fjarstýrðar.

Samstarfsaðilar Snerpu í þessum verkefnum eru tveir. Ísafjarðarbær fjármagnaði hluta framkvæmdanna með styrkfé gegn eignarhlut í kerfinu og forsendum um frekari uppbyggingu á næstu árum. Einnig gerði Snerpa sérstakan samning við Öryggisfjarskipti ohf. sem rekur m.a. dreifikerfi fyrir Tetra fjarskiptakerfið. Samningurinn við Öryggisfjarskipti felur í sér gagnkvæma samnýtingu á strengjum í Dýrafirði sem gerir Snerpu kleift að bjóða aðgang á sveitabæjum þar á sama verði og er í þéttbýli sem er jafnframt ein af forsendum samstarfssamnings við Ísafjarðarbæ. Þá mun Snerpa geta boðið verktökum og eftirlitsaðilum með byggingu Dýrafjarðarganga tengingu Dýrafjarðarmegin í vor en Snerpa selur þessum aðilum nú þegar þjónustu sína Arnarfjarðarmegin.

smari@bb.is

DEILA