EFTA-dómstóllinn í Lúxemborg felldi í morgun dóma í tveimur málum og kemst að þeirri niðurstöðu að íslenska leyfisveitingakerfið fyrir innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins. Bændasamtök Íslands telja niðurstöðu dómstólsins geta valdið miklu tjóni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu samtakanna. Þar segir að um sé að ræða þýðingarmikið hagsmunamál íslensks landbúnaðar en fjölmargir hafi bent á þá áhættu sem felst í auknum innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. Þrátt fyrir mótrök fjölda aðila úr heilbrigðisgeiranum, bænda og búvísindamanna og fleiri sem vara við óheftum innflutningi þá komist EFTA-dómstóllinn að annarri niðurstöðu.
„Bændasamtök Íslands harma niðurstöðu dómstólsins en þau hafa um árabil barist gegn innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. Að mati samtakanna mun niðurstaða dómsins að óbreyttu geta valdið íslenskum landbúnaði miklu tjóni og ógnað bæði lýðheilsu og búfjárheilsu. Ísland er ekki aðili að evrópskum tryggingarsjóðum sem bæta tjón ef upp koma alvarlegar sýkingar í landbúnaði og þyrfti ríkisvaldið ásamt bændum að bera slíkar byrðar,“ segir í tilkynningunni.
smari@bb.is