Hlýr loftmassi hefur nú færst aftur yfir landið. Enn sem komið er hefur vindur ekki náð sér á strik og því situr kalda loftið, sem réði ríkjum í byrjun vikunnar, sums staðar enn eftir. Því mælist frost nú í morgunsárið í uppsveitum á Suðurlandi og sums staðar á Suðausturlandi að því er segir í hugleiðingum vakthafandi Veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Samkvæmt spá mun þetta þó breytast í dag, því allsstaðar mun verða nægur vindur til að blanda hlýja loftmassanum við þann kalda.
Vindáttin í dag verður suðvestlæg, 8-18 m/s, og mesti vindhraðinn verður á Norðvesturlandi, en allhvass vindur verður á þeim slóðum. Einnig getur orðið nokkuð byljótt í Eyjafirði við þessar aðstæður. Loftið yfir landinu er þá ekki bara hlýtt, heldur er það líka rakt og því má búast við þungbúnu veðri með þokusúld eða rigningarsudda. Hiti verður á bilinu 3 til 10 stig, hlýjast austanlands.
Í landáttinni austanlands verður þó þurrt að kalla. Sumir vegir eru væntanlega enn hálir, en hlýindin í dag þýða þó að hálkulíkur fara ört minnkandi.
smari@bb.is