Þrír menn hafa verið ákærðir af embætti lögreglustjórans á Vestfjörðum fyrir að hafa í fyrra brotið gegn lögum um náttúruvernd og auglýsingu um friðland á Hornströndum með því að hafa laugardaginn 28. maí í fyrra komið í friðlandið og dvalið þar í vikutíma án þess að tilkynna Umhverfisstofnun um ferðalag sitt. Frá þessu er greint á mbl.is.
Málið komst í hámæli í fyrra er starfsfólk Borea Adventures kom að mönnunum í Hornvík þar sem þeir voru með skotvopn og ýmsan veiðibúnað, en meðferð skotvopna er bönnuð í friðlandinu.
Greint var frá því í janúar að fallið hafi verið frá ákæru gegn mönnunum, en þá hafði verið ákveðið að beita þá sektarmeðferð. Karl Ingi Vilbergsson, hjá lögreglunni á Vestfjörðum, staðfestir í samtali við mbl.is að mennirnir hafi hins vegar neitað að skrifa undir slíka sektarmeðferð og því hafi verið ákært í málinu. Það er aftur á móti ekki ákært fyrir veiði í friðlandinu.
Í síðustu viku féll sýknudómur í Héraðsdómi Vestfjarða í meiðyrðamáli þar sem GJÁ útgerð ehf, ferðaþjónustufyrirtækið sem flutti mennina og veiðibúnað þeirra til Hornvíkur, hafði höfðað á hendur Rúnari Óla Karlssyni hjá Borea Adventures vegna ummæla hans í fjölmiðlum um atburðina í Hornvík í fyrra.
smari@bb.is