Aflaverðmæti íslenskra skila í júlí var rúmlega 8,3 milljarðar króna sem er 11,7% minna en í júlí á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar. Fiskafli var rúm 73 þúsund tonn sem er 3% meira en í júlí 2016.
Verðmæti botnfiskaflans í júlí nam tæplega 5,1 milljarði króna sem er 12% samdráttur samanborið við júlí 2016. Verðmæti þorskaflans dróst saman um 5,5% og nam 3,1 milljarði þrátt fyrir 22% aukningu í aflamagni.
Aflaverðmæti uppsjávartegunda nam rúmlega 1,6 milljarði samanborið við 2,3 milljarða í júlí í fyrra en verðmæti flatfiska jókst um tæp 23% á milli ára og var tæplega 1,2 milljarður króna í júlí. Verðmæti skel- og krabbadýra jókst einnig og nam 405 milljónum samanborið við 358 milljónir í júlí í fyrra.
Á 12 mánaða tímabili, frá ágúst 2016 til júlí 2017 nam aflaverðmæti íslenskra skipa 111,5 milljörðum króna, sem er 18,8% samdráttur miðað við sama tímabil í fyrra.