Þurftu að hækka rafmagnslínur

Línan er komin í mun meiri hæð eins og sést glögglega á þessari mynd.

Á mánudaginn hóf vinnuflokkur frá Landsneti, með aðstoð verktaka við Dýrafjarðargöng, vinnu við hækkun á núverandi háspennulínu, svokallaðri Breiðdalslínu 1, nálægt Rauðsstöðum í Borgarfirði um 400 metra frá gangamunna Dýrafjarðarganga.

Tvær staurastæður voru teknar niður og í stað þeirra reistar tvær nýjar og hærri stæður sitt hvoru megin við fyrirhugaðan veg úr göngunum.  Auk þess var gerð sérstök fylling undir staurana til að lyfta þeim upp. Ástæða hækkunarinnar er að vegurinn á þeim kafla sem línan liggur yfir er mjög hár eða um 10 m, og því nauðsynlegt að hækka línuna þannig að  kröfur um lágmarkshæð háspennulínu og leiðara yfir jörðu séu uppfylltar. Vinnan við þessar breytingar gekk vel og lauk verkinu á miðvikudaginn í gær.

Fyrir 2010 þegar unnið var að hönnun ganganna var áætlað að þessi lína yrði fjarlægð þegar göngin væru komin og jarðstrengur í gegn um þau væri tilbúin. Nú er hins vegar komin upp einhver óvissa um hvort línan verði fjarlægð þó að ákvörðun liggi fyrir um leggja rafstreng um göngin.

smari@bb.is

DEILA