Þrír nýir í Norðvesturkjördæmi

Kjörstaðir verða opnaðir eftir tæpan sólarhring.

Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur 24,5 prósent fylgi í landsvísu í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið og birtist í blaðinu í dag. Vinstri græn eru næst stærst með 20,2 prósent og Samfylkingin kemur þar á eftir með 15,3 prósent fylgi. Þar fyrir neðan er þéttur pakki flokka sem eru undir 10 prósentum. Miðflokkurinn er þeirra stærstur með 9,3 prósent fylgi, þá Píratar með 8,8 prósent. Viðreisn fær 8,3 prósent í könnuninni og Framsóknarflokkur 7,9 prósent. Flokkur fólksins nær ekki manni á þing með sín 4,2 prósent og Björt framtíð rekur lestina með 1,3 prósent.

Horft á Norðvesturkjördæmi þá mun Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, falla af þingi og Framsóknarflokkurinn tapar einu þingsæti í kjördæminu. Bjarni Jónsson nær kjöri sem annar þingmaður Vinstri grænna og sömuleiðis nær Miðflokksmaðurinn Bergþór Ólason inn á þing. Þá verður Ásmundur Einar Daðason þingmaður Framsóknarflokksins en hann er gjörkunnugur kjördæminu eftir setu á fyrri þingum bæði fyrir Framsóknarflokk og Vinstri græna. Að öðru leyti verður þingmannahópurinn eins skipaður.

smari@bb.is

DEILA