Sjónarmunur á fylgi VG og Sjálfstæðisflokks

Formenn VG og Sjálfstæðisflokks á fundi eftir kosningarnar í fyrra. Mynd: Vísir/Anton

Sjónarmunur er á fylgi Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins í nýrri skoðanakönnun MMR. VG mælist með 21,8 prósenta fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 21,1 prósent. Skoðanakönnunin stóð yfir dagana 6. til 11. október. Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa tapað fylgi frá síðustu mælingu MMR sem lauk 28. september, en þá mældust Vinstri græn með 24,8 prósenta fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 23,5 prósenta fylgi. Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 13,0 prósent en það er aukning upp á 3 prósentustig frá síðustu mælingu. Miðflokkurinn mælist með stuðning 10,7 prósent kjósenda og mælist þar með stærri en Píratar, Flokkur fólksins og Framsóknarflokkurinn.

Björt framtíð mælist með 4,2 prósent en mældist með 2,5 prósenta fylgi í lok september og Viðreisn mælist nú með 3,6 prósenta fylgi og lækkar um 1,3 prósentustig frá síðustu könnun.

Í morgun birti Fréttablaðið skoðanakönnun sem mældi fylgi VG mun meira en könnun MMR. Í könnun Fréttablaðsins var fylgi VG tæp 30 prósent. Þá er fylgi Samfylkingarinnar er einnig umtalsvert meira í skoðanakönnun MMR en í könnun Fréttablaðsins en þar fengi flokkurinn rúm 8 prósent.  Að öðru leyti virðist fylgi annarra flokka vera svipað.

smari@bb.is

DEILA