Í síðustu viku voru grafnir 62,5 m í Dýrafjarðargöngum og göngin orðin 312,6 m að lengd. Eftir stíganda í greftrinum frá því að framkvæmdir hófust var heldur hægari gangur í síðustu viku samanborið við vikuna á undan. Það helgast af því að vikunni var byrjað á fyrsta útskoti ganganna.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur nokkuð af vatni komið úr berginu undanfarið og því hafa verið boraðar drenholur í þekju til að leiða vatn úr berginu. Efni úr jarðgöngum hefur verið keyrt á haugsvæði og í fyllingar.
Undanfarið hefur verið unnið við að standsetja skrifstofur verktaka og eftirlits við munna ganga, væntanlega verða þær teknar í notkun síðar í vikunni. Eins hafa verið settir upp olíutankar.
smari@bb.is