Ég sóttist eftir að leiða lista Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi með það fyrir augum að tala máli ungs fólks, og þá sérstaklega ungra kvenna. Vegna þess að ungar konur ráða byggð, þar sem þær velja sér að búa lifnar yfir mannlífinu.
Þátttaka mín í kosningabaráttunni í fjórðungnum hingað til hefur bara styrkt mig í þeirri trú að rödd kvenna þurfi að heyrast betur í stefnumótun og umræðu. Til dæmis var ekki ein einasta spurning um skólamál, heilbrigðismál eða menningu í oddvitaumræðum á RÚV í liðinni viku, þar sem saman voru komnir 7 karlmenn og 2 konur sem fulltrúar framboðanna. Rætt var um vegi, virkjun og iðnað, sem er vissulega mjög nauðsynlegt, en ansi litað af veruleika karlmennskunnar.
Ef ekki er rætt um nærþjónstu – mæðraskoðun, fæðingarhjálp, kennslu barna, félagslíf í bæjum, þorpum og sveitum, opnunartíma sundlauga, aðgengi að interneti eða menningarstarfsemi – í aðdraganda kosninga, eru hverfandi líkur á því að þau mál verði sett á oddinn hjá kjörnum fulltrúum á þingi. Það er bara svo einfalt.
Björt framtíð tók meðvitaða ákvörðun um að tefla fram sterkum kvennalista í Norðvesturkjördæmi, af þeim ástæðum sem reifaðar eru hér að ofan. Einsleitni er engum til góðs, það er almenn regla.
Ég hef áralanga reynslu af jafnréttismálum, störfum að eflingu vinnumarkaðar fyrir fólk með háskólamenntun, auk umfangsmikillar innsýnar í félagsleg réttindakerfi landsins. Ég kem úr heilbrigðisgeiranum, hef starfað bæði sjálfstætt og hjá LSH sem sjúkraþjálfari með ýmsum sjúklingahópum. Það veganesti óska ég eftir að fá að leggja af mörkum til að efla samkeppnisfærni Norðvesturkjördæmis um ungt fólk, framtíðarlífið í fjórðungnum.
Við stöllurnar í efstu sætum listans hjá Bjartri framtíð vonum að kjósendur í Norðvesturkjördæmi séu reiðubúnir að hugsa út fyrir kassann og laða til sín nýtt fólk í þjónustustörfin á Alþingi.
Höfundur er Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar í NV-kjördæmi.
Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta