Kæru Vestfirðingar

Jónas Þór Birgisson.

Við höfum um áratugaskeið horft upp á fólksfækkun og samdrátt.  Núna eru hins vegar blikur á lofti um að bjartari tímar geti verið framundan.  Að mínu mati vega þar þyngst þrír þættir; bættar samgöngur, bætt raforkuöryggi og uppbygging fiskeldis.

Samgöngur

Dýrafjarðargöng eru loksins komin af stað og þau ásamt endurbótum á Dynjandisheiði verða ekki stöðvuð úr þessu.  Þá stendur eftir margrædd veglagning um Teigskóg sem myndi valda því að hvorki þyrfti að fara um Ódrjúgsháls né Hjallaháls.  Sú leið sem Skipulagsstofnun leggur til, því hún er talin hafa minnst áhrif á náttúruna, felur í sér jarðgöng undir Hjallaháls en eftir sem áður þyrfti að fara yfir Ódrjúgsháls.  Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er þessi leið í kringum 5 milljörðum dýrari en leiðin um Teigskóg.  Nú finnst mér fráleitt að fara fram á það við aðra landsmenn að setja 5 milljarða umfram það sem þarf til að tryggja okkur Vestfirðingum nothæfan láglendisveg.  Segjum hins vegar sem svo að fólk sé sátt við að sleppa bara við annan hálsinn og finnist að við „eigum skilið“ eða eitthvað að fá þessa fjármuni miðað við hvað við höfum lagt til ríkisins en finnst ykkur líklegt að það muni takast á næstu árum eða jafnvel áratugum?

Raforkuöryggi

Vestfirðingar búa við aðstæður í raforkumálum sem fæstir landsmenn einfaldlega geta skilið.  Það líður ekki sá mánuður sem við verðum ekki rafmagnslaus í lengri eða skemmri tíma.  Eftir að olíuknúna varaaflsstöðin í Bolungarvík kom til sögunnar þá varir þetta ástand yfirleitt bara í nokkrar mínútur í hvert skipti í þéttbýlinu en oft mun lengur til sveita.  Þar að auki nær varaaflstöðin ekki að kynda híbýli okkar svo það getur orðið napurt þegar þetta gerist að vetri til.  Þessar nokkrar mínútur hljóma ekki sem langur tími en þær hafa mikil áhrif á atvinnulífið.  Það tekur miklu lengri tíma að koma tölvukerfum verslana aftur í gang heldur en heimilum fólks og ennþá lengri tíma að koma framleiðslufyrirtækjum í gang að nýju.  Það er svo sannarlega rétt sem margir hafa haldið fram að Hvalárvirkjun mun ekki ein og sér valda neinum straumhvörfum hvað þetta varðar.  Með tilkomu virkjunarinnar fer hins vegar Landsnet að fá nýjar tekjur sem nema hundruðum milljóna á hverju ári vegna flutnings á nýrri orku.  Þær nýju tekjur getur Landsnet og má nýta til að tengja Vestfirði við raforkukerfið með fullnægjandi hætti.  Það er alveg hægt að fara út í nauðsynlegar línulagnir án þess að Hvalárvirkjun komi til en þá þarf ríkisvaldið að leggja til með sérstökum hætti í kringum 7 milljarða.  Nú finnst mér fráleitt að fara fram á það við aðra landsmenn að þeir leggi til 7 milljarða umfram það sem þarf til að tryggja okkur Vestfirðingum sama raforkuöryggi og langflestir landsmenn búa við.  Ef fólki finnst hins vegar að við „eigum skilið“ eða eitthvað að fá þessa fjármuni miðað við hvað við höfum lagt til ríkisins þá stendur eftir spurningin hvort ykkur finnist líklegt að það muni takast á næstu árum eða jafnvel áratugum?

Fiskeldi

Allir hlutar landsins hafa eitthvað til að bera sem styrkir búsetu og atvinnuskilyrði þar.  Nefna má t.d. góð hafnarskilyrði, heitt vatn, nálægð við millilandaflugvöllinn, gott gróðurlendi, nálægð við höfuðborgarsvæðið þar sem öll stjórnsýsla landsins er og 2/3 hlutar landsmanna búa o.s.frv.  Það sem var styrkleiki á sínum tíma verður það ekki endilega um aldur og ævi en það er augljós styrkleiki Vestfjarða í dag að hér eru firðir sem frá náttúrunnar hendi henta mjög vel til fiskeldis.  Með því að nýta þessa firði skynsamlega og í góðri sátt við náttúruna, þ.m.t. með nauðsynlegum mótvægisaðgerðum er varðar laxveiðiár við Ísafjarðardjúp, þá má á Vestfjörðum skapa gríðarleg verðmæti.  Það finnst mér afar jákvætt fyrir okkur sem hér búum en ekki síður fyrir aðra landsmenn því skatttekjur ríkisins af fiskeldi á Vestfjörðum geta orðið gríðarlegar og fyrir okkur sem þjóð eru gjaldeyrisskapandi greinar hreinlega lífsspursmál.  Tekjur ríkisins af fiskeldinu myndu auðveldlega standa undir öllum kostnaði ríkisins við uppbyggingu innviða á Vestfjörðum.  Nú er alveg hægt að hafa þá skoðun að ríkið eigi frekar að leggja okkur Vestfirðingum til einhverjar vesalingabætur fyrir að vilja búa hér og kannski finna upp á einhverju öðru sem getur skapað verðmæti og störf.  Mér finnst fráleitt að fara fram á það við aðra landsmenn að þeir leggi Vestfirðingum til einhverja fjármuni með sérstökum hætti en segjum sem svo að einhverjum finnist að við „eigum skilið“ eða eitthvað að fá þessa fjármuni miðað við hvað við höfum lagt til ríkisins, en finnst ykkur líklegt að það muni takast?

Allir þessir þrír þættir sem ég hef minnst á fela í sér, þótt á hóflegan hátt sé, ákveðin inngrip í náttúruna.  Finnst ykkur kæru Vestfirðingar þessi uppbygging sem ég hef gert grein fyrir vera mikilvæg?  Ef þið viljið fara aðrar leiðir en ég þá ber ég virðingu fyrir því þar sem lífið væri svo sannarlega verra ef allir hefðu sömu skoðanir.  Ef þið eruð hins vegar á sömu skoðun og ég bið ég ykkur að velta því fyrir ykkur hvort líklegra sé að vinstristjórn undir forystu Vinstri grænna muni styðja okkur í þessum málum eða ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Jónas Þór Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ

 

 

 

DEILA