Í lok síðustu viku vakti ungt fólk athygli á þeim mikla aðstöðumun sem felst í því að eiga langveikt barn á landsbyggðinni. Þórir og Guðrún Kristín eru búsett á Ísafirði og eiga soninn Birkir Snær sem er tæplega tveggja ára gamall. Birkir Snær hefur verið veikur frá fæðingu, og var greindur með krabbamein í apríl í fyrra. Það fylgir því mikið álag og vinna að eiga langveikt barn. Birkir Snær þarf að sækja sína sérhæfðu læknisþjónustu á Landsspítalann, þar er hann í lyfjameðferð og rannsóknum að minnsta kosti einu sinni í mánuði, stundum oftar. Þetta þýðir mikinn ferðakostnað og vinnutap foreldrana, og til að bæta gráu ofan á svart er aðeins greitt fyrir einn fylgdarmann með barninu. Í svona aðstæðum þarf barn á báðum foreldrum sínum að halda og foreldrarnir þurfa hvort á öðru að halda. Þegar fólk þarf að ferðast svona oft til að sækja læknisþjónustu með tilheyrandi vinnutapi og kostnaði fer þetta að taka verulega í budduna hjá öllu venjulegu fólki. Á síðasta ári fengu þau Þórir og Guðrún Kristín 60% endurgreitt af ferðakostnaði, sem þau voru búin að leggja út fyrir. Þessu þarf að breyta.
Sjúkratryggingakerfið þarf að virka fyrir fólk og á að jafna aðstöðumun, og gera fólki kleyft að sækja þá þjónustu sem þörf er á hverju sinni. Í 1. grein laga um sjúkratryggingar segir að markmiðið með lögunum sé að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Til að uppfylla þetta lagaákvæði þarf augljóslega að hækka endurgreiðslur vegna ferðakostnaðar.
Það er ekki í lagi að fárveik börn geti ekki haft báða foreldra sína hjá sér án þess að þurfa bera megnið af kostnaðinum sjálf.
Ég vil að foreldrar langveikra barna fái að beina kröftum sínum í ummönnun barnanna sinna og hugsa um hvort annað í erfiðu aðstæðum. Þess vegna verðum við að breyta kerfinu og láta það virka fyrir fólk.
Við í Samfylkingunni viljum öfluga, opinbera heilbrigðisþjónustu og vera í fremstu röð þjóða á því sviði. Þjónustan sé öllum aðgengileg óháð efnahag og búsetu og að kröfur um gæði, hagkvæmni og öryggi séu skýrar.
Arna Lára Jónsdóttir
Skipar 2.sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi