Hægt að athuga hvort að nafn sé á meðmælendalista

.

Nú getur fólk kannað hvort nafn þess hafi verið skráð á meðmælendalista einhvers framboðanna sem hyggjast eða hugðust bjóða fram í næstu alþingiskosningum. Þetta getur fólk gert með því að fara í pósthólf sín á mínum síðum á Ísland.is. Frá því hefur verið greint síðustu daga að brögð hafa verið á því að nöfn hafa verið á meðmælendalistum án þess að viðkomandi kannist við að hafa skrifað undir og undirskriftirnar falsaðar. Íslenska þjóðfylkingin dró framboð sitt til baka af þeim sökum og hefur málið verið kært til lögreglu.

Á vef Þjóðskrár kemur fram að alls voru 25.669 kennitölur skráðar inn í rafrænt meðmælendakerfi á Ísland.is en þar af voru 1536 skráningar ógildar eða 5,98% vegna þess að viðkomandi var skráður á fleiri en einn meðmælendalista. Þjóðskrá beinir því til þeirra sem finna nafn sitt á meðmælendalista án þess að hafa skrifað undir, að hafa samband við yfirkjörstjórn í sínu kjördæmi.

smari@bb.is

DEILA