Gerum betur í heilbrigðismálum

Dagrún Ósk Jónsdóttir rannsakaði mannát í íslenskum þjóðsögum.

Eitt af því sem þarf að taka fastari tökum eftir komandi kosningar eru heilbrigðismál. Það er ekki síst mikilvægt fyrir dreifðar byggðir landsins. Skilgreina þarf vandlega hvaða heilbrigðisþjónusta á að vera í boði að lágmarki í öllum byggðarlögum og finna leiðir til að veita þá grunnþjónustu og bæta hana síðan jafnt og þétt. Aðgengi að heilsugæslu og læknum verður að vera tryggt alls staðar á landinu. Það er mikilvægt byggðamál.

Kostnaðarþátttaka fólks vegna heilbrigðisþjónustu er of mikil og þarf að minnka, fyrst hjá öryrkjum og öldruðum, langveikum og börnum. Um leið þarf að auka stuðning vegna endurtekinna ferðalaga fyrir fólk sem er búsett utan höfuðborgarsvæðisins og þarf að leita þangað til sérfræðinga. Sláandi reynslusagnir fólks um erfiðleika og kostnað vegna sífelldra ferðalaga vegna alvarlegra sjúkdóma eða með langveik börn eiga að heyra sögunni til. Sama gildir um reynslu kvenna sem þurfa að dvelja langdvölum á höfuðborgarsvæðinu til að tryggja öryggi við barnsfæðingu með tilheyrandi dvalarkostnaði. Nóg er samt að þurfa jafnvel að skipta upp fjölskyldunni með langri dvöl fjarri heimili fyrir barnsfæðingu. Koma þarf til móts við þennan kostnað, þar sem ekki er mögulegt að veita þjónustuna í heimabyggð sem væri auðvitað besti kosturinn.

Forvarnir í heilbrigðismálum skipta líka miklu máli og á jafnt við um líkamlega sjúkdóma og andlega. Gera þarf stórátak í að vinna fyrirbyggjandi starf gegn sjúkdómum eins og þunglyndi og kvíða sem fer mjög vaxandi, ekki síst meðal ungs fólks. Það bókstaflega verður að leggja aukna áherslu á hugarfarsbreytingu gagnvart ósýnilegum sjúkdómum. Þannig mætti auka lífsgæðin hjá fjölda fólks. Hluti af því er líka að vinna gegn þöggun og ofbeldismenningu í samfélaginu og opna enn betur umræðu um virkilega erfið málefni, eins og kynferðislega áreitni, líkamlegt og andlegt ofbeldi, heimilisofbeldi, einelti meðal fullorðinna jafnt sem barna, þunglyndi og sjálfsvíg. Á þessu sviði er hægt að gera betur og það á að vera forgangsmál. Einkarekstur heilbrigðisþjónustu er ekki lausnin, heldur aukið fjármagn, betra skipulag og betri þjónusta.

Það er stefna VG að sálfræðiþjónusta verði hluti af almenna heilbrigðiskerfinu og að enginn þurfi að neita sér um slíka þjónustu vegna kostnaðar eða skorti á aðgengi. Sálfræðiþjónusta þarf að vera í boði við alla framhaldsskóla landsins og stórátak þarf einnig  í geðheilbrigðismálum. Fyrsta skrefið á því sviði er að tryggja fjármagn til að veita viðunandi þjónustu á bráðageðdeild og barna- og unglingageðdeild.

Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur,
í 4. sæti framboðslista VG í Norðvesturkjördæmi

DEILA