Framsóknargenin

Gauti Geirsson

Það er sagt að ég hafi fæðst sem Framsóknarmaður. Það sé í genunum. Þetta hefur að vísu ekki verið rannsakað mikið og þeir erfðafræðingar sem ég þekki til hafa ekki viljað staðfesta þetta. Annað vafamál í erfðafræðinni er möguleg erfðablöndun laxastofna við Djúp en það sem er ekki hægt að véfengja er að umhverfið mótar manninn.

Langamma sem fæddist á Sæbóli í Aðalvík og ólst þar upp var framsóknarkona. Það má líklega rekja Framsóknarmennskuna til hennar. Hún giftist reyndar bóndasyni frá stórbýlinu Hafrafelli sem var af miklum sjálfstæðisættum en hún var nú ekki eins og strá í vindi, tók ekki upp skoðanir bónda síns heldur sat við sinn keip. Útkoman varð svo sú að flestir hennar synir mótuðust uppí að verða miklir Framsóknar- og samvinnumenn.

Ég ólst upp undir sterkum áhrifum frá einum þeirra bræðra. Það var hugsjónin um samfélagið og samtakamáttinn sem heillaði mig mest í hans lífsviðhorfum. Honum fannst aldrei tiltakamál að fá neitt lánað eða lána til annarra. Naut þess ennfremur ef hann gat hjálpað öðrum. Hann stóð í atvinnurekstri, bæði sjálfstætt og í slagtogi með öðrum. Arðsemiskrafan var ekki há, ef hann og mennirnir höfðu í sig og á var markmiðinu náð. Þetta fannst mér og finnst mér enn einkar eftirsóknarverð lífssýn, sérstaklega á tímum stjarnfræðilegra bónusa fyrir lítið sem ekki neitt.

Samfélögin á Vestfjörðum hafa átt undir högg að sækja allt mitt lífsskeið. Ég upplifði aldrei hina miklu uppgangstíma þegar það voru skuttogarar í hverju þorpi og uppgangur, nýtt orgel í hverri kirkju. Ég ætla ekki að rekja orsakir og afleiðingar hér enda það verið reynt þúsund sinnum með álíka mörgum niðurstöðum. Staðan í dag sem við verðum að horfast í augu við er að Vestfirðir eru kalt svæði efnahagslega, við höfum misst mikið af okkar fyrra þreki og það hefur gerst yfir lengri tíma.

Í erfiðleikum getur verið freistandi að grípa til patent lausna svosem stóriðju en Vestfirðingar hafa staðist slík próf og hafnað slíkum hugmyndum.  Í heimi þar sem okkar stærsta ógn er loftslagsbreytingar, mengun og súrnun sjávar og neysluhyggja, eru gífurleg tækifæri fólgin í því að verða sjálfbært samfélag og um leið fyrirmyndir annarra. Það er hægt.
Tækifærin eru meira að segja beint fyrir framan okkur, sem dæmi um það er umhverfisvæn og samfélagslega sinnuð matvælaframleiðsla í fjörðunumm (Ísafjarðardjúpi þar á meðal), raforkuframleiðsla á völdum fallvötnum með því fororði að hringtengja Vestfirði og ekki síður í sjálfbærri ferðaþjónustu, sauðfjárrækt, nýsköpun og sjávarútvegi.

Til þess að hrinda þessari sýn um sjálfbæra, blómlega og jafnvel kolefnishlutlausa Vestfirði í framkvæmd þarf brennandi áhuga, festu og skýra sýn. Það er ekki nóg að vita af þessum möguleikum og nefna þá í greinarskrifum eða í ræðum á borgarafundum rétt fyrir kosningar. Það þarf að berjast hvern einasta dag innan kerfisins fyrir þeim því þeir komast ekki sjálfkrafa í verk.

Frambjóðendur og forysta Framsóknarflokksins hafa ennfremur talað öll í eina átt hvað varðar þessi stærstu hagsmunamál Vestfirðinga sem talin eru upp hér að framan, eitthvað sem flestir aðrir flokkar geta ekki státað sig af. Ennfremur er það beinlínis í grunnstefnu Framsóknar að tryggja jafnrétti á öllum sviðum, líka jafnrétti til búsetu, atriði sem aðrir jafnaðarflokkar hafa stundum misst augun af.

Umhverfið sem mótaði mig,  hugsjónin og fólkið sem hrífst að henni, eru ástæðurnar fyrir því að ég er Framsóknarmaður. Ég hvet þig kæri kjósandi til þess að leggja okkur lið í komandi baráttu, baráttu fyrir Vestfirði og tryggja Höllu Signý, kjarnakonu úr Bolungarvík inná þing. Árangur áfram gakk!

Gauti Geirsson, 12 sæti Framsóknar í NV kjördæmi og Framsóknarmaður í fjórða ættlið.

DEILA