Forystumenn stjórnmálaflokkanna eru tilbúnir að skoða skosku leiðina í innanlandsflugi. Þetta kom fram á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í morgun. Skoska leiðin felur í sér að íbúar á afmörkuðum afskekktum svæðum í Skotlandi fá 50% afslátt af flugleiðum til sex áfangastaða, innan og utan Bretlandseyja. Ríkið stendur fyrir þessu verkefni, sem kallast ADS, Air Discount Scheme, og setti það á laggirnar í samræmi við reglur Evrópusambandsins um styrki við jaðarbyggðir.
Skoska ríkið niðurgreiðir þessa þjónustu til um 70 þúsund notenda á ári og kostnaður ríkisins nemur um 16-17 þúsund krónum á hvern notanda. Reynslan sýnir að að langflestir nota niðurgreiðsluna til að heimsækja vini og ættingja, fremur en til að sinna öðrum erindum svo sem vinnu.
Frá því verkefnið var sett á fót í Skotlandi hefur farþegum fjölgað á öllum leiðum þar sem þetta er í gildi og talið að 13% flugferðanna hefðu ekki verið farnar ef ADS hefði ekki notið við.
smari@bb.is