Eitt stöðugildi í hættu

Starfsmenn Náttúrustofunnar við rannsóknir á Látrabjargi.

Eitt stöðugildi hjá Náttúrustofu Vestfjarða er í hættu verði boðaður niðurskurður fjárlagafrumvarpsins að veruleika. „Í frumvarpinu á að skera niður til okkar um 10,1 milljón króna milli ára,“ segir Nancy Bechtloff, forstöðumaður Náttúrustofunnar. „Þetta þýðir að eitt stöðugildi við stofuna er í hættu,“ segir hún. Frá árinu 2008 hefur Náttúrustofan fengið aukafjárveitingu á hverju ári sem var ákveðin með Vestfjarðanefndinni sem skilaði tillögum 2007. Nancy segir að aukafjárveitingin hafi verið notuð til að halda úti starfsstöð með einu stöðugildi á Bíldudal.

Nancy Bechtloff.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra lagði fjárlagafrumvarpið fram stuttu áður en ríkisstjórnin sprakk og óvissa er um örlög frumvarpsins þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum að loknum kosningum á laugardaginn.

Framlög ríkissjóðs til Náttúrustofunnar voru 29,3 milljónir króna á síðasta reikningsári og er því um þriðjungs niðurskurð að ræða.

Að sögn Nancy komu tíðindin í fjárlagafrumvarpinu eins og köld vatnsgusa framan í starfsmenn Náttúrustofunnar og hún óttast að enn meiri niðurskurður sé í kortunum. „Í fylgiriti með fjárlögum lítur út fyrir að það eigi að skera niður til náttúrustofanna í landinu á næstu árum,“ segir Nancy.

smari@bb.is

DEILA