Ég man þig hlaut aðalverðlaun á þýsku kvikmyndahátíðinni Fantasy Film Fest. Tíu kvikmyndir tóku þátt í aðalkeppninni. Á meðal sigurvegara undanfarinna ára eru myndir á borð við Beasts of the Southern Wild, District 9 og Brick. Segja má að Ég man þig sé því í góðum félagsskap með þessum stóru kvikmyndum sem hafa áður hlotið verðlaunin. Fantasy Film Fest er haldin í 31. skipti í ár og fór fram í sjö stærstu borgum Þýskalands í september.
Í umsögn dómara segir að Ég man þig sé sálfræðiþriller og ein svakalegasta draugamynd seinni ára. Þá er sagt að handritið sé listilega vel skrifað, kvikmyndatakan öll hin glæsilegasta undir styrkri leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar. Umsögnin er botnuð með þeim orðum að svona eigi að gera alvöru kvikmynd.
Leikstjóri er, eins og áður hefur komið fram, Óskar Þór Axelsson og handrit er eftir Ottó Geir Borg og Óskar Þór. Ég man þig er byggð á samnefndri metsölubók eftir Yrsu Sigurðardóttur. Í aðalhlutverkum eru Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Framleiðendur eru Þórir Snær Sigurjónsson, Skúli Malmquist, Sigurjón Sighvatsson og Chris Briggs.
Ég man þig fjallar um ungt fólk sem fer til Hesteyrar að gera upp hús um miðjan vetur en fer fljótlega að gruna að þau séu ekki einu gestirnir í þessu eyðiþorpi. Á Ísafirði dregst nýi geðlæknirinn í bænum inn í rannsókn á sjálfsmorði eldri konu.
bryndis@bb.is