„Ekki nógu gott fyrir mitt fólk“

Guðmundur Kristján Jónsson

Sá er hér heldur á penna hefur notið þeirra forréttinda frá blautu barnsbeini að hafa aðgang að sumarhúsi og nokkuð fjölmennri fjölskyldu á Vestfjörðum. Slíkt er ómetanlegt fyrir borgarbörn sem að öðrum kosti eiga að hættu á að fá ansi fábreytta sýn á íslenskt samfélag. Það verður seint sagt að vetrardvalir í Hlíðunum í Reykjavík einkennist af harðri lífsbaráttu þó að auðvitað megi ekki vanmeta áhrifin sem það hefur á fólk þegar blaðið er ekki komið inn um lúguna fyrir kl. 06 á morgnana í svartasta skammdeginu.
Upp á síðkastið hefur hinsvegar einn maður öðru fremur staðið vaktina í að minna mig og samstarfskonu mína á hver veruleiki Vestfirðinga er og hvaða úrlausnarmál eru brýnust hverju sinni.

Eins og gefur að skilja þá eru æði mörg mál á borði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem snúa að Vestfjörðum í einni eða annarri mynd. Þegar undirritaður hóf störf sem aðstoðarmaður ráðherra stóð sjómannaverkfallið sem hæst, laxeldismálin fylgdu í kjölfarið og nú síðast hefur afkomubrestur sauðfjárbænda verið í hámæli. Svo eru það auðvitað öll hin málin sem rata óbeint á borð ráðherra og skipta líka gríðarlega miklu máli, byggðakvóti, Dýrarfjarðargöng og Dynjandisheiði, raforkuöryggi, hringavitleysan í kringum Teigskóg og óáreiðanlegt innanlandsflug svo fáein dæmi séu nefnd.

Allt eru þetta mál sem að Gylfi Ólafsson er óþreytandi (og allt að því óþolandi) að óska eftir fundum um og ræða við ráðherra. Satt best að segja hefur enginn óskað eftir fleiri fundum með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á núverandi kjörtímabili til að ræða málefni Vestfjarða en hinn óopinberi þingmaður fjórðungsins sem ætla mætti að hefði í nógu öðru að snúast sem einn ábyrgasti aðstoðarmaður fjármálaráðherra í manna minnum.

Það hafa verið sannkölluð forréttindi að kynnast Gylfa á síðustu mánuðum og einlægri ástríðu hans fyrir sínum heimahögum. Það skiptir nær engum toga hvaða málamiðlanir eru lagðar á borð fyrir Gylfa í erfiðum málum, svarið er ætíð: „Þetta er ekki nógu og gott fyrir mitt fólk“. Í kjölfarið fylgir síðan vandlega ígrunduð lausnatillaga.
Ég hvet ykkur, kæru Vestfirðingar, frændfólk og vinir að tryggja Gylfa Ólafssyni brautargengi í komandi kosningum því heilsteyptari, heiðarlegri og vinnusamari manneskja er vandfundin í ólgusjó stjórnmálanna. Vestfirðingar og þjóðin öll þarf þannig fólk á þing.

Guðmundur Kristján Jónsson

Höfundur er aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

DEILA