Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag áherslur og skipulag ríkisins í komandi kjaraviðræðum við starfsmenn ríkisins. Ráðherra sagði markmið ríkisins vera að ná samstöðu um það hvernig eigi að viðhalda þeirri kaupmáttaraukningu sem orðið hefur á undanförnum árum og byggja upp samkeppnishæft starfsumhverfi ríkisins. Ráðherra lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að öll upplýsingagjöf af hálfu ríkisins í tengslum við kjarasamningana verði skilvirk og aðgengileg.
„Þessir samningar snúast um það hvernig við getum átt gott og árangursríkt samstarf við opinbera starfsmenn enda byggir allur árangur í ríkisrekstrinum á að laða til sín og halda í hæft starfsfólk. Þess vegna munum við leggja áherslu á að hlusta og vinna með viðsemjendum okkar að því sameiginlega markmiði að ríkið geti boðið samkeppnishæf kjör á sama tíma og við sýnum ábyrgð í fjármálum og efnahagsmálum. Þá leggjum við áherslu á að þetta samtal haldi áfram yfir samningstímann en ljúki ekki þegar skrifað er undir samningana,“ er haft eftir fjármálaráðherra í tilkynningu.
smari@bb.is